Fuglaskoðun

Mývatn og Laxá er þekkt fyrir ríkulegt og fjölbreytt fuglalíf, sérstaklega er þar mikið af öndum og öðrum vatnafuglum.  Þar verpa 14 andategundir, sem er einsdæmi á Norðurhveli jarðar.  Þéttleikinn er mikill og tegundasamsetningin sérstæð.


Hægt er að skoða fugla við vatnið árið um kring.  Á veturna eru stórar vakir þar sem álftir, húsendur, gulendur og stokkendur halda sig.  Farfuglarnir fara að koma í apríl.  Skemmtilegasti tíminn við vatnið er maí og júní, en mikið er þó um að vera allt sumarið. 

Umferð er óheimil um norðvesturhluta vatnsins og nánasta umhverfis á varptíma, 15. maí – 15. júlí.  Kjörið er að skoða fugla frá Fuglasafninu og fuglskoðunarhúsum við það á þessum tíma.

Nær allir íslenskir vatnafuglar verpa við Mývatn og Laxá. Skúföndin er algengust en húsönd, duggönd, rauðhöfðaönd, urtönd og toppönd eru einnig algengar. Þekktasta straumandarvarp í heimi er við útfall Laxár úr Mývatni.  Álftir og grágæsir eru víða og stór álftahópur heldur til á Mývatni yfir sumarið. Heiðagæsir verpa í hálendisbrúninni sunnan Mývatns en einnig lítillega við vatnið. Nokkur pör af himbrima og lómi verpa í Mývatnssveit og óðinshanar eru algengir. Þar eru höfuðstöðvar flórgoðans á Íslandi.  Hettumáfar og kríur eru algengar og flestallar tegundir íslenskra vaðfugla, spörfugla og ránfugla finnast á svæðinu. Rjúpur eru algengar og allmörg fálkahjón verpa, fáein brandugluhjón og nokkrir smyrlar.

Munið að kl. 14:00 alla daga koma fuglaskoðarar saman í fuglaskoðunarkaffi í safninu og ræða málin. Í safninu er dagbók þar sem fuglaskoðarar skrá þá fugla sem þeir sjá og þá um leið er hægt að forvitnast um það hvaða fugla aðrir hafa séð og hvar.

Fuglasafnið leigir út aðstöðu í fuglaskoðunarhúsunum. Leitið upplýsinga í fuglasafninu.

Hér má sjá vídeo um fuglaskoðun á norðaustur landi

Allar myndirnar á þessari síðu eru eftir Jóhann Óla Hilmarsson fuglafræðing og fuglaljósmyndara.

 

Fuglasafn Sigurgeirs ses, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn, kennitala: 521107-0300,
Sími 464 4477, tölvupóstur fuglasafn(hjá)fuglasafn.is