Kafarinn


Kafarinn er verkfæri sem var notaður til að leggja net undir ís. Sterkt snæri var bundið í kafarann og hann settur niður um vök. Með því að toga og slaka snærinu á víxl fikraði kafarinn sig áfram neðan á ísnum að næstu vök, þar sem snærið var tekið upp og netið dregið á milli. Kafaranum var síðan skotið áfram eftir þörfum.
Með því að beita þessari tækni þurfti að vaka færri vakir en áður. Tvær vakir þurfti fyrir fyrsta net og svo eina vök fyrir hvert net til viðbótar. Áður en kafarinn kom til sögunnar þurfti 4-5 vakir fyrir hvert net, en erfitt gat reynst að vaka þær ef ís var farinn að þykkna.
Kafarinn var smíðaður af Jóni Sigtryggssyni í Syðri Neslöndum. Við smíðarnar fór hann eftir teikningum og smíðaleiðbeiningum sem Þórarinn Stefánsson sendi Hjálmari bróður sínum, bónda í Vagnbrekku í Mývatnssveit árið 1931. Þórarinn kynntist tækninni í Kanada þar sem hann var búsettur.
Um tíma var þetta eini kafarinn í sveitinni en síðar má segja að til hafi verið kafari á hverjum bæ.

Teikning af kafaranum frá Kanada

Mynd af upprunalegu teikningunni frá 1931

 

Fuglasafn Sigurgeirs ses, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn, kennitala: 521107-0300,
Sími 464 4477, tölvupóstur fuglasafn(hjá)fuglasafn.is