Konungleg skemmtiferð


Í júlí 1964 hringdi dr. Finnur Guðmundsson fuglafræðingur frá Akureyri í Jón Sigtryggsson og bað hann um að ferja nokkra menn um vatnið sem höfðu áhuga á fuglaskoðun. Í föruneyti Finns reyndust vera engir aðrir en Filippus drottningarmaður af Englandi og Ásgeir Ásgeirsson forseti Íslands, ásamt fleirum.
Filippus var mikill áhugamaður um náttúruskoðun og sérstaklega fugla og vildi skoða sig um Mývatn og nágrenni.
Jón sótti prinsinn og föruneyti hans við Fellshól, austan við Skútustaði, þar sem gott var að leggja að landi. Hann hafði smíðað litla landgöngubrú, svo hinir tignu gestir gátu gengið þurrum fótum um borð í Sleipni.
Sigldu þeir svo um vatnið þvert og endilangt, meðal annars norður fyrir Mikley og kringum Hrútey og inn í víkur og voga þar sem hið fjölskrúðuga fuglalíf var skoðað. Að endingu var siglt suður í Höfðavog þar sem hópurinn steig á land. Þar tók Sverrir Tryggvason í Víðihlíð á móti hópnum og fór með þá í Dimmuborgir í fálkaskoðun.

Jón á siglingu við Höfða
Jón á siglingu við Höfða með Filippus og Ásgeir Ásgeirsson

 

Fuglasafn Sigurgeirs ses, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn, kennitala: 521107-0300,
Sími 464 4477, tölvupóstur fuglasafn(hjá)fuglasafn.is