Nytjar vatnsins


Mývatn er stærsta vatn Suður-Þingeyjasýslu og fjórða stærsta vatn landsins, 36,5 ferkílómetrar að flatarmáli. Vatnið er mjög vogskorið og tiltölulega grunnt. Dýpst er það um 4,5 metrar, víða 2 til 3 metrar.
Lífríki við Mývatn er geysilega fjölbreytt, dýralíf margvíslegt og gróður gróskumikill og fjölskrúðugur. Við vatnið má finna 50 tegundir af mýi sem er undirstaða lífríkisins við vatnið.
Við Mývatn hefur verið allfjölmenn byggð frá öndverðri Íslandsbyggð enda er hér búsældarlegt þótt sveitin liggi hátt. Sauðfjárbúskapur hefur verið þýðingarmesti atvinnuvegurinn í Mývatnssveit öldum saman en mikil hlunnindi fást einnig af silungsveiði og eggjatöku.
Fuglalíf við Mývatn er mjög mikið. Talið er að hvergi á jörðinni verpi jafnmargar andategundir á einum stað. Sést hafa 115 tegundir fugla við vatnið, þar af eru 45 tegundir sem verpa hér ár hvert.
Silungsveiði hefur verið stunduð í Mývatni frá fornu fari. Veiði var mest á árunum upp úr 1920, en þá veiddust um og yfir 100 þúsund silungar á ári. Mjög hefur dregið úr veiðinni síðan. Bæði bleikja og urriði veiðast í Mývatni, þó mun meira af bleikju, en urriði er varla meira en 10-20% af heildarafla.
Mývetningar hafa frá alda öðli gengið varpið og tínt egg. Endur verpa oftast á bilinu 6-9 eggjum, en oft sjást hreiður með enn fleiri eggjum þar sem fleiri kollur hafa orpið í sama hreiður. Venja er að skilja 4 egg eftir í hverju hreiðri, 5 hjá sumum tegundum. Ef hreiður eru stór eru þó fleiri egg skilin eftir. Sem dæmi má nefna að ef 12 egg eru í hreiðri eru ekki tekin fleiri en 5 egg og 7 skilin eftir. Áætlað hefur verið að um 10.000 egg séu nú tekin á hverju vori, en á fyrri helmingi síðustu aldar var eggjataka mun meiri.
Úr leifum kísilþörunga hafa myndast 5 til 10 metra þykk setlög á botni Mývatns sem notað var sem hráefni fyrir kísilgúrverksmiðjuna í Bjarnarflagi sem starfaði frá 1967 til 2004.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fuglasafn Sigurgeirs ses, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn, kennitala: 521107-0300,
Sími 464 4477, tölvupóstur fuglasafn(hjá)fuglasafn.is