Siglingar á Mývatni með vélbátnum Sleipni


Vélbáturinn Sleipnir kom til Mývatns árið 1930, í upphafi bílaaldar. Bílar voru farnir að flytja vörur í Álftagerði, við vatnið sunnanvert, en lengra fóru þeir ekki, enda var enn veglaust norður fyrir vatnið. Jón Sigtryggsson hóf útgerð sína á Sleipni þegar ljóst þótti að bæir í norðurhluta sveitarinnar yrðu enn um sinn afskiptir um vegagerð.
Útgerð Sleipnis reyndist fljótt mikil samgöngubót í Mývatnssveit. Hlutverk Jóns var að ferja vörur frá Álftagerði á bæina umhverfis Mývatn, einkum við vatnið norðanvert, auk þess sem hann flutti fólk milli bæja við vatnið. Það þótti mikil framför að fá vörur fluttar með bílum seinni part dags frá Húsavík upp í Álftagerði og síðan með vélbátnum heim að bæ sama kvöld.
Jón hélt úti ferðum frá því ísa leysti á vorin og oft langt fram á haust. Að eigin sögn lagði hann oft mikið á Sleipni og flutti allt að eitt og hálft tonn af vörum og fólki þegar vel viðraði. Á tímabili flutti hann einnig kísilgúr í tunnum sem safnað var af botni vatnsins í Norðurflóa. Um var að ræða sýnishorn sem send voru til rannsóknar erlendis áður en verksmiðjan í Bjarnarflagi var sett á fót.
Jón sigldi víða. Hann fór daglegar siglingar frá Álftagerði til Reykjahlíðar og Slútness auk þess sem hann sigldi eftir þörfum um vatnið þvert og endilangt. Jón komst svo að orði að „ef slóðirnar sæjust væri enginn blettur ótroðinn“.
Eftirspurnin eftir þjónustu Sleipnis var mikil. Fólk hengdi út hvít eða svört lök til að gefa Jóni merki um að þjónustu hans væri óskað. Hann fór oft margar ferðir á dag og sjaldan með færri en 15-20 manns í einu að eigin sögn. Þegar fleiri voru á ferðinni en báturinn rúmaði var stundum gripið til þess ráðs að festa pramma aftan í bátinn til að auka flutningsgetuna.
Þegar vegur var lagður í kringum vatnið dró smátt og smátt úr flutningum með Sleipni og bílar tóku við því hlutverki. Sá vegur var þó oft erfiður viðfangs þegar snjór var mestur.
Jón hætti útgerð á Sleipni árið 1977 eftir 47 ára siglingar á Mývatni.

 

Sleipnir á siglingu
Jón á siglingu á Sleipni með vörur
Sleipnir á siglingu
Jón á Sleipin með farþega á vatninu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fuglasafn Sigurgeirs ses, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn, kennitala: 521107-0300,
Sími 464 4477, tölvupóstur fuglasafn(hjá)fuglasafn.is