Sleipnir kemur til landsins


Vélbáturinn Sleipnir kom til landsins frá Noregi með skipinu Nova um miðjan maí árið 1930.
Jón Sigtryggsson ferðaðist til Húsavíkur og tók þar á móti bátnum. Jón fékk „vélfróðan mann“, Árna á Fossi, til að kenna sér helstu tökin á vélina og fékk hjá honum þriggja daga kennslu. Þetta var eina menntunin sem Jón fékk í meðferð véla en annars var hann algerlega sjálfmenntaður á því sviði. Jón sá um viðhald á Slepni alla tíð.
Áður en báturinn var fluttur til Mývatns fór Jón nokkrar reynsluferðir út á Skjálfanda og um höfnina á Húsavík. Stundum var Árni með í för. Að þeim ferðum loknum var báturinn tekinn upp á land þar sem hann lá meðan þess var beðið að bílfært yrði yfir Mývatnsheiði.
Laugardaginn 7. júní þótti leiðin orðin nægilega greið. Snjór var að mestu horfinn en klaki ekki alveg farinn úr jörðu. Jón fékk aðstoð Sigurðar í Haganesi við að sækja bátinn, en hann átti eins og hálfs tonns vörubíl með stuttum palli. Hópur manna lyfti bátnum, sem vó rúmt tonn, upp á bílinn. Þar lá hann meðfram stýrishúsinu og á ská aftur eftir pallinum. Hann var svo skorðaður og bundinn rækilega.
Á leiðinni yfir heiðina festist bíllinn á vegslóða enda hlassið þungt. Þá komu aðvífandi fjórir vegagerðarmenn sem hjálpuðu Jóni og félögum að losa bílinn. Þeir greiddu svo götu þeirra alla leið upp í Álftagerði, meðal annars með því að leggja veg í mónum suður af Brattási. Að lokum hjálpuðu þeir við að taka bátinn af bílnum og setja hann á flot.
Óhætt er að segja að Mývetningar hafi tekið Sleipni fagnandi, enda veitti hann sveitungum afar þarfa þjónustu sem lengi hafði verið beðið eftir. Jómfrúarferðin var farin samdægurs norður í Voga. Morguninn eftir var kallað eftir bátnum í Haganes en þar vildu menn fara í prufutúr til Reykjahlíðar. Daginn eftir, hvítasunnudag, hafði Jón nóg að gera og var meðal annars prammi festur aftan í bátinn þegar hann skutlaði mannskap frá Syðri-Neslöndum upp í Reykjahlíð í messu.

Jón á Sleipni

 

 

Fuglasafn Sigurgeirs ses, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn, kennitala: 521107-0300,
Sími 464 4477, tölvupóstur fuglasafn(hjá)fuglasafn.is