Sleipnir


Vélbáturinn Sleipnir var notaður til fólksflutninga og fraktsiglinga á Mývatni á árunum 1930 til 1977. Jón Sigtryggsson (1903-1987) bóndi á Syðri Neslöndum átti bátinn og stýrði honum allan þann tíma.
Sleipnir er úr furu og eik, 21 fet (6,9 metrar) á lengd, 6 fet og 3 tommur (1,9 metrar) á breidd og vegur rúmt tonn. Báturinn flutti allt að eitt og hálft tonn af vörum og farþegum þegar vel viðraði.
Vélin, sem framleidd er af Sleipner Motoren í Fredriksstad í Noregi, er 5 hestöfl. Hún er einföld að gerð og allir helstu hlutir hennar eru úr kopar. Jón sagði vélina vera „meistarastykki ... engu stykki ofaukið og heldur einskis vant.“
Sleipnir er búinn svonefndri skiptiskrúfu. Með slíkri skrúfu má sigla bátnum jafnt aftur á bak sem áfram og láta vélina ganga í hlutlausu. Skiptiskrúfan gerir enn fremur kleift að ná auknum hraða, með því að auka áfallshorn skrúfublaðanna þegar hraðar er siglt.
Báturinn var smíðaður í Noregi og fluttur nýr til landsins vorið 1930 fyrir milligöngu Axels Kristjánssonar heildsala á Akureyri. 

Jón á Sleipni

 

Fuglasafn Sigurgeirs ses, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn, kennitala: 521107-0300,
Sími 464 4477, tölvupóstur fuglasafn(hjá)fuglasafn.is