Grein sem byrtist í morgunblaðinu 20. des 1998 um Sigurgeir

 

Hamhleypa í fuglasöfnun

Geiri í gamla skúrnum

Mývatn er víðfræg fuglaparadís. Þar eiga fleiri andategundir sumardvöl en annars staðar, auk fjölda mófugla, ránfugla og rjúpna. Fjölskrúðugri gerist þó fuglafánan þegar kemur í lítinn skúr á bænum Ytri-Neslöndum. Þar á Sigurgeir Stefánsson merkilegt safn uppstoppaðra fugla og eggja. Guðni Einarsson og Ragnar Axelsson heimsóttu fuglasafnarann og skoðuðu safnið.

"ÉG VEIT ekki alveg hvað fuglarnir eru margir, en tegundirnar eru 160 - 180 og fuglarnir tæplega 300," sagði Sigurgeir Stefánsson og opnaði fyrir okkur húsakynnin sem ábyggilega eru ein þau minnstu sem hýsa náttúrugripasafn opið almenningi. Safnið er helsta áhugamál Sigurgeirs en hann vinnur í Kísiliðjunni. Er á dælupramma á sumrin og í pökkuninni á veturna. Einnig vinnur hann við dekkjaverkstæði í eigu fjölskyldunnar á Ytri- Neslöndum.

Safnhúsið lætur ekki mikið yfir sér, það er 13 fermetrar að stærð og plássið nýtt til hins ýtrasta. Fyrst er komið inn í anddyri sem rúmar tvo mjóslegna eða einn fullvaxinn. Uppstoppað flórgoðapar vaktar gestabók sem liggur þar á borði. Á veggnum fyrir ofan hangir skjal með nöfnum gefenda húsnæðisins, þeirra Jóns Sigtryggssonar frá Syðri-Neslöndum og Guðmundar Ingva Gestssonar frá Akureyri. Inn af forstofunni er sýningarsalurinn, gluggalaust herbergi. Lýsing er í gólfinu og þar standa stórir fuglar. Næst koma lokaðar hillur með eggjum allra íslenskra fugla og rúmlega það, rétt um 100 eggjategundir að sögn Sigurgeirs. Svo taka við enn fleiri hillur og enn fleiri fuglar.

Vantar fjórar tegundir

Við hvern fugl er merkispjald með tegundarheiti á sex til sjö tungumálum, íslensku, latínu, þýsku, frönsku, dönsku, ensku og amerísku sé tegundarheitið ekki það sama í Bandaríkjunum og í Englandi. Sigurgeir segist ekki vera læs á erlendar tungur en eiga og hafa lesið allar íslenskar fuglabækur, nema þá nýjustu. Eins fær hann tímarit um fugla. Hann styðst við þessi gögn þegar fuglarnir eru merktir. En eru þarna allir íslenskir fuglar?

"Nei, mig vantar haförn, snæuglu, þórshana og músarrindil," segir Sigurgeir. "Draumurinn er að ná öllum íslensku fuglunum og að eiga þá löglega." Að sögn Sigurgeirs þarf sérstakt leyfi til að eiga haförn og fleiri sjaldgæfa fugla. Í safninu er meðal annars glæsilegur fálki, hvernig er hann tilkominn? "Mér var færður hann. Þetta er ungur fugl, en ég veit ekkert um sögu hans."

Þarna er að finna fágæta flækinga og eins fugla sem ekki er vitað til að hafi nokkru sinni ratað hingað lifandi. Hvaðan eru þeir komnir?

"Ég er í sambandi við uppstoppara sem fá leyfi til að flytja inn hamina, eins hef ég fengið fugla í skiptum." Sigurgeir hefur aðallega fengið þá Steingrím Þorsteinsson, fyrrverandi kennara og skólastjóra á Dalvík, og Sigurð Guðmundsson, mjólkurfræðing á Akureyri, til að stoppa upp fuglana. Sigurgeir áætlar að hann sé búinn að verja meira en milljón krónum í uppstoppun, en ef allir fuglarnir væru stoppaðir upp í dag þá telur hann að það mundi ekki kosta undir tveimur milljónum króna.

Sigurgeir safnar fuglum bæði í vetrar- og sumarbúningi, honum þykir mest varið í að eiga fuglana í sem skrautlegustum búningi. Hann á nokkuð af uppstoppuðum ungum og sjaldgæf litarafbrigði. Sumir eru fágætir í náttúrunni. Keldusvínið er íslenskur fugl, en sumir telja það útdautt hér á landi. Sigurgeir hefur enga trú á því, segir fjóra fugla hafa komið í minkagildru í Kelduhverfi fyrir þremur árum. Eins hafi keldusvín sést í Mývatnssveit fyrir tveimur árum og slóð eftir það í fyrra. Honum tókst þó ekki að ná í íslenskt eintak heldur fékk hann ham frá Danmörku.

Byrjaði ungur

Sigurgeir var 11 eða 12 ára gamall þegar hann fór að safna eggjum og var kominn um tvítugt þegar fuglasöfnunin hófst. En hvaða fugl eignaðist hann fyrst?

"Ég tók ekki einn fugl heldur þrjá, múkka, gráhegra og lunda," segir Sigurgeir. "Vinur minn skaut gráhegrann sem var búinn að liggja átta ár í kistu áður en ég fékk hann."

Úti í horni stendur stór og tígulegur fugl.

"Þessi sást hér í sveitinni, en við gátum ekki greint hvaða tegund hann var," segir Sigurgeir. "Það var hringt í Náttúrufræðistofnun og þeir sögðu okkur að skjóta fuglinn. Þetta reyndist þá vera grátrana og sú fyrsta sem þá var vitað um að hefði komið hingað til lands. Stofnunin vildi fá fuglinn en við neituðum að afhenda hann nema með skilyrði. Það var að fá frá þeim haförn og leyfi til að eiga hann, en þeir höfnuðu því svo tranan er hér."

Einn fágætasti fuglinn sem Sigurgeir á er bognefur. "Það kom svona fugl hingað til lands fyrir 1950 og svo annar í vor. Við fundum haminn af þessum í frystikistu suður í Reykjavík, hann er líklega ættaður úr dýragarði erlendis," segir Sigurgeir. Álftina í safninu þurfti ekki að sækja eins langt. "Ég fann þessa dauða á túninu hér einn morguninn. Hún flaug á raflínu," segir Sigurgeir. "Það gerist þrisvar til fjórum sinnum á ári hér að þær fljúga á línur og slá út rafmagninu. Ég fór strax með þessa til Dalvíkur og lét stoppa hana upp. Daginn eftir lá önnur álft dauð á sama stað."

Dreymir um safnhús

Skúrinn sem hýsir safnið á sér nokkra sögu. Hann kom í Mývatnssveit í tíð Kröfluelda og var settur upp í túninu á Syðri-Neslöndum. Í skúrnum voru þá þrjú símtæki sem voru í beinu sambandi við Akureyri. Að sögn Sigurveigar Sigtryggsdóttur í Syðri-Neslöndum var talið að ef færi að gjósa væri síður hætta á að hraunið næði yfir Flóann í fyrstu umferð og skúrinn því settur upp á Neslandatanga. Þannig átti að vera hægt að koma boðum til Akureyrar, ef færi að gjósa. Þegar hætta á gosi var talin hjá var símstöðinni lokað og skúrinn stóð auður í nokkur ár, eða þar til Sigurgeir eignaðist hann árið 1985.

Fuglasafnið í Ytri-Neslöndum hefur aldrei verið auglýst en frá því hefur verið sagt í blöðum og sjónvarpi. Ferðaskrifstofa, sem skipuleggur ferðir í kringum vatnið, hefur þar viðkomu með ferðamenn. Flestir koma þó á eigin vegum og banka uppá. "Það er oftast einhver heima sem sýnir safnið, það er helst ef við erum í heyskap að enginn er við," segir Sigurgeir. Aðsóknin er töluverð sem sést af því að fyrstu níu mánuði þessa árs voru gestirnir um 700 talsins.

Húsnæðið er löngu orðið of lítið. Sigurgeir segist eiga þrjátíu uppstoppaða fugla í geymslu annars staðar. Þar á meðal er hvítt afbrigði af hávellu. Draumur Sigurgeirs er að það rísi safnhús við Mývatn þar sem fuglasafnið gæti fengið inni og verið til sýnis. Helst vildi hann hafa smækkaða mynd af vatninu í húsinu og geta raðað fuglunum upp eftir því hvar þeir sjást helst. Hann segir mikla þörf fyrir safnahús, bæði fyrir byggðasafn og náttúrugripi. "Það vilja allir fá hús, en það vill enginn borga fyrir það," sagði Sigurgeir.

Morgunblaðið/RAX

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fuglasafn Sigurgeirs ses, Ytri-Neslöndum, 660 Mývatn, kennitala: 521107-0300,
Sími 464 4477, tölvupóstur fuglasafn(hjá)fuglasafn.is